Veröld Fjördísar

fimmtudagur, júní 29, 2006


Já Andri.... ég grét. Hættu svo að gera grín að því - þetta var æðisleg athöfn! Til hamingju elsku Þórdís mín og Tommi og takk fyrir mig.

föstudagur, júní 23, 2006

Samúðarkveðjur til allra þeirra sem eins og ég vakna á morgnana með útvarpsvekjarann stilltann á X-ið, en vöknuðu ekki í morgun því það var aðeins ÞÖGN sem heyrðist frá þeirri stöð... Sem betur fer bý ég heima (hahahaha) og því gátu foreldrar mínir vakið mig í tæka tíð.

Vika liðin frá því að ég byrjaði í vinnunni og í gær gat ég svarað sjálf tveimur fyrirspurnum:
1) Sekkjapípuleikari er að koma til landsins í haust, en er hræddur um að sekkjapípan verði tekin af honum við komuna því í hana er notað fílabein. Það er nefnilega bannað að flytja inn afurðir dýra sem eru/gætu verið í útrýmingarhættu.
2) Sundlaug á landsbyggðinni þurfti að fá 4 stk. af "baðkallinum" svokallaða, þessum sem sýnir hvar maður skal vinsamlega þvo sér áður en gengið er til laugar.

Gat hins vegar t.d. ekki svarað um hvað reglugerðir segðu um rotþrær við 80 m2 sumarbústaði, né blýmengun af völdum haglaskota. Svo dæmi séu tekin.
Síðan hitti ég mann áðan sem vinnur hér en ég hef hingað til bara talað við í síma, og hann hrósaði mér fyrir hvað ég bæri af mér góðan þokka í símanum, það væri svo nauðsynlegt hjá ríkisstofnunum sem oft væru þekktar fyrir annað. Krúttmaður! Hins vegar er hér skortur á yngri fólki, sé ekki fyrir mér vinnupartý ala Vegagerðin allavega :)

Setning dagsins:
Nónklettur er á NV-horni Nafa, eyktarmark frá Klúku, og SA af honum eru nokkrir klettakollar, meira eða minna stuðlaðir, og snúa stuðlarnir alla vega, sumsstaðar fallega bogadregnir, svo þeir minna á skipsbyrðing.

fimmtudagur, júní 22, 2006

Þessi maður...

Austan við bæinn og klettana er “Kóreksstaðablá” og í henni eru Hrafnaklettar, eins og eyja á sléttunni, og eru lóðréttir stuðlaveggir umhverfis þá að utanverðu í hálfhring, 5-10 m háir, með smáskörðum, og að NA er sérkennilegur stuðlabergsturn.

200 blaðsíður í viðbót af þessu takk fyrir!

btw, mig langar í íbúð. Sem fyrst takk.

þriðjudagur, júní 20, 2006

Ég er ekki frá því að ég sé að skrifa upp texta frá manni sem notar kommur jafnvel meira en ég.
Dæmi:
Innan við Brókargil ganga nokkrir oddmyndaðir klettatangar, er Stjórnir nefnast, eins og kesjur fram í sjóinn, og þar rennur Stjórnarlækur niður af björgunum. Framan við Stjórnir er klettaurð, sem heitir Teisturð, neðan undir björgunum, og verpa þar nokkur teistupör.

Mér líður vel yfir því. Ég borða ekki hægast af öllum hér og nota ekki flestar kommur. Ég kann innanhúsarbrandara (um "ríkisbifreiðina" HAHAHA) og það heyrist click clack þegar ég geng. Vinnan mín er fín :)

föstudagur, júní 16, 2006

(psst er í vinnunni en vitið þið hvað toppskarfur heitir á ensku? Shag...)

Farin að gæsa Þórdísi!!!

þriðjudagur, júní 13, 2006

Ég er búin að fá vinnu. Sem er gott að sumu leiti en ekki svo gott að öðru. Og þá aðallega í ferðaplönum okkur Herdísar. Ferðin okkar í gegnum Mið Asíu er komið í stórhættu vegna þess að jú, maður þarf víst að vinna fyrir ferðinni :( Ég er búin að tala við vinkonu mína í Kyrgistan (mér finnst töff að eiga vinkonu frá landi sem ég vissi ekki að væri til fyrr en fyrir 2 árum síðan) og hún segist jafnvel geta farið með okkur til Kazakstan, en það væri þá bara auka. Þetta á allt saman eftir að koma í ljós bara, vonandi sem fyrst!

Ég hef ekkert kafað núna í mánuð held ég - soldið svekkt yfir því að geta ekki klárað námskeiðið svo ég geti farið í ferðir hér innanlands.

Ég er byrjuð á Draumalandinu hans Andra Snæs, hef ekki verið svona spennt yfir bók síðan fyrstu Terry Prachett bókinni minni! Og þá á ég ekki við svona spennt að vita hvernig endar spennt, heldur spennt yfir því að lesa meira því þetta er svo frábærlega skrifað!

Fótboltinn í dag var góður, Ástralir eru komnir í favorites hjá mér núna. Klukkan er þrjú og ég er enn ekki farin að sofa - byrja ekki í vinnunni fyrr en á fimmtudag því yfirmaður minn er hjátrúarfullur.

Í síðustu viku hlaut Ártúnsskóli Menntaverðlaunin 2006. Þar sem ég er bæði fyrrverandi nemandi og starfsmaður var ég einstaklega stolt af því að sjá Ellert taka við verðlaununum og standa sig svo vel í Kastljósinu á eftir. Á fimmtudaginn var okkur boðið í mat á Grand Hótel - ég og skólastjórinn fórum á trúnó og hann gat ekki hætt að tala um hvað ég hefði verið frábær nemandi og bauð mér síðan stöðu aftur við skólann næsta haust. Ég lofaði að hugsa málið og veit enn ekki hvað ég á að gera... Tillögur óskast!

sunnudagur, júní 11, 2006

Þar sem Heimsmeistarkeppnin í fótbolta er hafin finnst mér ég verða að vera með eitt HM blogg. En í staðin fyrir að velja mann umferðarinnar (sem var Shaka Hislop) ætla ég að velja þann myndarlegasta. Því eins og við vitum þá er ég kvenmaður og hef því bæði takmarkaðan áhuga á þessu sparki en enn minna vit. Sá drengur sem varð fyrir valinu hjá mér að þessu er enginn annar en markvörður Englendinga, Paul Robinson. Það voru nokkrir aðrir sem komu til álíta hjá mér eins og þessi nr. 9 hjá Pólverjum og svo er eitthvað við svíann Wilhelmson sem heillar mig - ef maður lítur framhjá skottinu hans.

Ég held svei mér að ég haldi þessum dagskrárlið áfram á blogginu mínu. Tja allavega þangað til Gattuso byrjar að spila með Ítölum eftir smá meiðsli. Því enginn á roð við honum, hann er bara ÞAÐ kynþokkafullur.

þriðjudagur, júní 06, 2006

Úttekt á aðstöðu blaðamanna:

Staður: Grindavíkurvöllur
Útsýni: Mjög gott (hefðu samt mátt hafa verið fleiri myndarlegir fréttamenn)
Stólar: Nokkuð þægilegir, og borðið ágætt þrátt fyrir að vera mjótt.
Kaffi: Svolgraði í mig einum bolla, kaffivélin stóð fyrir sínu - af eldri gerðinni samt.
Meðlæti: Mjög gott, fimm tegundir af bakkelsi.
Athugasemdir: Mjög kalt var inni í blaðamannstúkunni og þessi eini litli hitari sem þarna var ekki að gera nógu góða hluti. Má geta þess að ástæði þess að ég drakk þennan kaffibolla var til að reyna að koma smá hita í kroppinn, en kaffi er að sjálfsögðu viðurstyggð.
Note to self: Ekki gleyma að merka við hornspyrnunar, og þegar markmaður kemur út á móti og tekur boltann er það merkt sem: Skot, skot á mark, og varið.

Rosalega var ég samt að standa mig í tölfræðinni ha! Merkti við allar aukaspyrnur, horn, rangstöður, skot, og markvörslur. Verst hvað þetta var leiðinlegur leikur... Náði allavega að lesa HM blaðið og fylgjast með Hjalti rugla yfir sig á boltavakt vísis.is þar sem hann og hettumávurinn fóru á kostum!

föstudagur, júní 02, 2006

Á leiðinni heim áðan var ég hlusta á Útvarp Latabæ og tók vel undir þegar Litlir kassar hófst. Hefur alltaf fundist þetta krúttlegt lag.. einn er rauður, annar gulur, þriðji fjólublár og fjórði röndóttur! Ég hækka og syng með þegar ég átta mig á ádeiluna í þessu lagi. Hef alltaf litið á þetta sem hálfgert barnalag en nei - þjóðfélagsgagnrýni á að allir séu steyptir í sama mót af hæsta gæðiflokki, pönklag. Ég fíla Útvarp Latabæ.


Vinnan á kjördag var ekkert svo slæm. Dagurinn leið hratt og ég hitti ótrúlega mikið af fólki sem ég hef ekki séð lengi. Hafði því miður ekkert tíma til að spjalla neitt því maður var á fullu að finna fólkið og merkja við en þetta var bara fínasta djobb.

Lá við að ég fengi tár í augun (lá ekkert við, ég fékk tár í augun!) þegar ég kvaddi börnin mín í dag. Litlu listamennirnir, skæruliðarnir, fótboltakrakkarnir, tónlistarpíunar, púllararnir, knúsararnir, grallararnir og dansaranir. Ó hvað ég á eftir að sakna þeirra - þvílík breyting á mér frá því að ég tja, var ekkert voða mikið fyrir börn fyrir ári síðan.

OK hef ekki tíma til að blogga meira, er nefnilega að tala við írska PG á msn og við vitum hvað það þýðir... :)