Veröld Fjördísar

þriðjudagur, mars 29, 2005

Er það tilætlunarsemi í mér að búast við því að það séu til verkjatöflur úti í kjörbúðinni minni? Er það bara eitthvað amerískt sem ég hef vanist á?

Hætti mér allavega út núna áðan. Mikið var nú gott að fá frískt loft eftir alla þessu inniveru. Ég er öll að braggast - verð búin að ná mér eftir nokkra daga sé ég fram á! Fór reyndar ekki í skólann í morgun og hef þvílíkt samviskubit. Fran varð af því að hafa mig sem andmælenda... æ æ. Man bara ekki hvenær ég missti síðast af tíma vegna veikinda!

Hafið þið einhvern tímann staðið ykkur að því að raða inn í ísskápinn matvörum sem þarfnast ekki kælingar (óopnaðar sultukrukkur til dæmis) bara svo hann liti girnilegar út? Minn er allavega miklu kræsilegri núna - eins og ég eigi fullt af gómsætum réttum sem bíða þess að vera töfraðir fram á borðið :)

PS. Keypti mér tilbúið frosið lasagne á 100 kall í kvöldmatinn...

mánudagur, mars 28, 2005

Kvef eða flensa?

Þá er það staðfest. Samkvæmt öllum greinum hef ég svo sannarlega flensu með öllu sem henni fylgir; háum hita, slappleika og vanlíðan, höfuðverk, stíflað nef, særindi í hálsi, hnerra, augnverkjum... Já mér líður svo sannarlega bölvanlega. Held samt að hitinn sé að lækka í dag, og ég virðist vera að fá matarlystina aftur. Hef reynt að sofa og halda mig í rúminu en það gengur lítið. Get ekki sofið, og rúmið mitt er svo óþægilegt að ég fæ bara í bakið og get ekki komið mér þægilega fyrir.

Á meðan íslendingar eru með magann fullan af páskaeggjum er minn fullur af slími og vibba.
Ég vorkenni sjálfri mér ótrúlega mikið!
Og það versta er að ég á ekki einu sinni verkjalyf hvað þá meira, og enginn hérna sem ég get sent út í apótek.

Á morgun á ég að vera á móti (? hvað heitir það - þegar einhver flytur fyrirlestur og eftir hann þá ræði ég hann og bendi á hvað betur gæti farið og þannig) Fran í Negotiation. Þarf að undirbúa mig fyrir það en er ekki að sjá mig lesa mikið í dag... Að auki er "Negotiation Day" á fimmtudag. Við tökum einar friðarviðræður fyrir, Guatemala í þetta skiptið, og skiptum hlutverkum á milli okkar og leikum það út. Ég er Bandaríkín og þarf að lesa mér til um hvernig þeir komu að viðræðum, hvað þeir vildu út úr þeim og þannig. Blar...

Ætla að reyna að leggja mig aftur, eða eitthvað...

sunnudagur, mars 27, 2005



GLEÐILEGA PÁSKA ÖLLSÖMUL!

föstudagur, mars 25, 2005

RIP Noodles


Noodles
Originally uploaded by Hjördíss.
Ég var að fá slæmar fréttir. Noodles, bíllinn minn er dáinn. Vélin gaf sig víst, enda örugglega orðin veik af þrá eftir sínum gamla eiganda. Svona fer þegar ekki er hugað nógu vel og gætilega að olíunni, ég kunni á hann! Saknans. Mikið :(

miðvikudagur, mars 23, 2005

Fyrst færslan bara hvarf í gær ætla ég að birta það helsta úr henni hér:

Gestur 18,000: Kominn og farinn. Enginn gaf sig fram svo ég mun borða skyrkökuna sjálf.

Fisher málið: Ekki þess virða að tala um aftur, argasta vitleysa (hmmm... ætli ríksistjórnin hafi kannski ritskoðað bloggið mitt og tekið út pistilinn?)

Ýr og Arnar: Fæddur er 9 marka piltur.
Fleiri óléttur: Maggi, Gaui, og Viggi. Leyndómeðganga að auki.

Hallgrímur Helgason. Góð ræða á þingi ungliðasamataka stjórnmálaflokkana. (Aftur, staðfesti hér með grun minn um ritskoðun - greinilegt að ég hef orðið fyrir ofsóknum á háu stigi)

St. Patrick´s Day: Grænn bjór, grænir sokkar, Guinness.
Föstudagur: Afmæli Söndru, írskur bar, Guinness.
Laugardagur: Afmæli Rayko, sushi, ódýr skólabjór.

Held að þetta nái utan um færsluna að mestu.

PS. Af hverju hefur enginn sagt okkur að það er þráðlaust internet á bókasafninu? Væri svo miklu oftar þar hefði ég vitað það fyrr!

Bíddu.. hvert fór eiginlega færslan mín frá í gær?
Ég hef ekki einu sinni farið inn á blogger og hún er bara horfin! Þetta er undarlegt. Mjög svo.

mánudagur, mars 21, 2005

Ég sá dáldið rosalega creepy í strætó í vikunni. Þar var lítil telpa með leikskólanum sínum, hún hefur verið svona 3-4 ára, og grey stelpan var með samvaxnar augabrúnir! Það var alveg hrikalegt að horfa upp á þetta - svo glöð og kát stelpa með ekkert svo þykkar augabrúnir, en þær væru kolsvartar og hefði aðeins mátt plokka barnið svo það liti ekki svona agalega út. Er það kannski að ganga of langt - að setja leikskólabörn í plokkun? Nei veistu, það finnst mér ekki þegar svona er komið. Ég starði bara á hana, aumingja stelpuna, og hún brosti til baka - og kærði sig kollótta um staðlaðar vestrænar fegurðarímyndir.

miðvikudagur, mars 16, 2005

Er það eðlilegt að manni dreymi langan, flókin, og ofur-raunverulegan draum um Eftirlitsstofnum EFTA? Dreymdi að ég ætti mér enga ósk heitari en að vinna hjá Eftirlitsstofnuninni, hvernig ég fór þangað og beinlínis heimtaði að verða ráðin, þrátt fyrir að þetta væru allt saman jakkafataklæddir, eldri menn þarna, og ég passi engan veginn inn í þetta umhverfi. Eru þetta einhver skilaboð til mín? Einhver óskhyggja kannski, eða fyrirboði?
Vona ekki því seinna í draumnum þá tapaði Liverpool leiknum á móti Blackburn, sem er einmitt að hefjast eftir 20 mínútur.

Eftirlitsstofnum EFTA... verð að játa að ég fór á netið og skoðaði svona hitt og þetta í kringum hana - viti menn, kannski ég geti nýtt mér eitthvað þaðan í lokaritgerðinni!

Hlakka til að horfa á Gettu betur á eftir, vona að það komi fljótt inn á netið. Stundum þarf ég að bíða allt kvöldið eftir fréttunum eða þáttum! Kvarta ekki reyndar... þetta er reyndar mjög góð þjónusta hjá "útvarpi allra landsmanna". Leiðinlegt hversu þetta mál í kringum ráðningu fréttastjóra er orðið stórt og umdeilt. Hins vegar hef ég ekki eina einustu almenninilega skýringu heyrt hvernig hann er tengdur Framsóknarflokknum. Er þetta bara eitthvað sem er talað um á milli manna en ekki skrifað um? Hef bara heyrt að hann sé gamall vinur einhvers... eru eitthvað nánari tengsl sem ég hef bara misst af?

Þar sem Auðun Georg hefur reynslu úr viðskipaheiminum og er örugglega klár kall, þætti mér samt kannski eðlilegra ef hann hefði verið ráðinn forstöðumaður markaðsviðs, eða jafnvel framkvæmdastjóri útvarps/sjónvarps. Forstöðumaður fréttasviðs ætti að koma úr röðum fréttamanna finnst mér, en ekki úr viðskiptum.
En það hefur svo mikið verið rætt um þetta mál að ég ætla ekki að fara nánar út í það...

Leikurinn alveg að hefjast - hann VERÐUR að vinnast svo við missum ekki af lestinni í Meistaradeildina á næsta ári. Annars eru Everton nánast búnir að tryggja sér seðlilinn þangað :( Munið bara, You´ll never walk alone...

mánudagur, mars 14, 2005

googlename


Gúgglaðu
Originally uploaded by Hjordis.
Ok förum í skemmtilegan leik! Farðu á google.com og inn í images. Skrifaðu þar inn nafnið þitt og sjáðu hvað þú þarft að fara margar blaðsíður áfram áður en þú finnur mynd af sjálfum / sjálfri þér! Ég notaði reyndar "Hjordis" því ég er svo international, og það borgaði sig, því á bls. 3 sást fyrsta myndin - Hjördís á hrekkjarvöku fyrir 2 árum eða svo. Með músareyru.

Getur verið að ég sé að skjóta því að frest að skrifa verkefnið fyrir morgundaginn, þar sem ég þarf að greina frá efni í lokaritgerðina?
Mmmmmm... kannski.

sunnudagur, mars 13, 2005

Mér er illt í öllum skrokknum eftir þessa "vinnutörn" fyrir helgi. Á fimmtudag var ég á bjórbarnum, litlum bar í einu horninu sem selur bara bjór, og var ofsalega lítið að gera allt kvöldið. Ekki eins slæmt að hjóla í snjónum og ég hélt!

Á föstudag vann ég líka í Norrlands, en þá var ég "barlöb" sem þýðir að ég fór á milli allra baranna (5 stykki dreifð um húsið á 2 hæðum) og sótti það sem þá vantaði - glös, bjór, áfengi, rör, servíettur... Það var "gask" þetta kvöld, formlegur kvöldverður og fínn klæðnaður, nokkurskonar árshátíð eiginlega! Yfir 1000 manns og allt troðið. Brjálað að gera hjá mér frá 20-2, þeytast á milli hæða og reyna að redda hlutum. Erfiðast var að komast að sumum börunum. Enn þeirra var svo illa staðsettur að ég þurfti að taka lyftu upp úr eldhúsinu, fara í gengum lokaðan sal, yfir andyri fullt af fólki, gegnum þröngan gang troðinn af fólki, til að ná að komast inn á dansgólfið þar sem barinn var. Í gegnum þessa mannþröng bar maður einn kassa á eftir öðrum... Þannig að það var ofsa mikið að gera, en ég fékk samt 10% af þjórfénu frá börunum! Hafði 2000 kr. (íslenskar) út úr því, eða jafnmikið og ég útborgað fyrir kvöldið. Þetta er þrælavinna alveg og ég veit ekki hvort ég mun gera þetta mörgum sinnum aftur, langar allavega að prófa kannski að vinna á öðru Nationi.

Í gær bauð Tuuli okkur í mat og dugnaðarforkurinn ég hjólaði líka þangað. Tók mig ríflega klukkutíma, svolítið af lausasnjó líka sem hægði á mér. Fórum í heimsókn oní bæ, so bara heim. Ég er enn með harðsperrur um allan líkaman, sérstaklega í handleggjum og svo í rassinum eftir hjólið...

Ætla samt að hitta Tuuli á eftir held ég - meira hjól!

fimmtudagur, mars 10, 2005

Tjúttaðu fram á nótt karchan85
Name
What you Look like
TónlistLatin
Quiz created with MemeGen!

miðvikudagur, mars 09, 2005

Þessir svíar! Bara vegna þess að Zlatan er í Juventus þá sýna þeir þann leik í kvöld. Ég vil sjá Liverpool leikinn damn it!

Fyrirlesturinn um Norður-Írland gekk bara vonum framar í gær. Auðvitað er alveg margt í þessu máli sem ég hef engan skilning á, en það reddaðist. Hafiði séð fréttinar í dag? Gerry Adams ad fara yfir strikið núna... eins og þetta er klár maður. Ég meira að segja "held með" Sinn Fein aðeins pínku meira! Þó svo maður fordæmi að sjálfsögðu öll hermdarverk á báða bóga, bæði gegn mótmælendum og kaþólikkum, þá hef ég meiri samúð með málsstað kaþólikana.

Ég er að fara að vinna annað kvöld. Og hugsið ykkur, ég mun ekki vinna mér nógu mikinn pening til að taka leigubíl heim - þar sem strætó hættir að ganga á miðnætti. Nationin hérna ráða bara nemendur, en kaupið er um 300 kr. á tímann. Þar sem ég mun vinna á barnum frá 21-1, þá verð ég bara að hjóla heim sýnist mér svo ég komi ekki út í tapi! Mikil hálka á götunum er ekkert sérstaklega lokkandi reyndar svo ég veit ekki hvað ég geri.

Pönk kvöldið sl. föstudag var vonbrigði, engar hljómsveitir bara plötusnúðar sem áttu ekki einu sinni Against Me! Fékk samt óskalag með Stiff Little Fingers og skankaði við það. Hitti sænskan dreng sem hefur lært íslensku í 5 mánuði og gat talað alveg ótrúlega rétta íslensku með réttum föllum og allt! Hann var samt nörd og elti mig allt kvöldið. Maður er bara ekkert 28 ára, útskrifur úr háskóla, en vinnur samt í Nation fyrir 300 kall!
Restin af helginni fór í Norður-Írland, friðarviðræður, tónlistaruppeldi, DVD, IRA, og Barcelóna drauma.
Stoltust er ég af tónlistaruppeldinu - ég kenndi Hjalti bróður að meta góða tónlist og held ég hafi opnað fyrir nýja vitund hjá honum, enda tónlistarsmekkur minn með afbrigðum góður :)

Grillveisla á morgun hjá bekknum, ætla þangað áður en ég fer að dæla bjór fyrir samnemendur mína. Þess má geta að stór bjór kostar samt minna heldur en tímakaupið mitt!

miðvikudagur, mars 02, 2005

Ég held að það séu nú ansi mörg ár frá því að ég grét yfir skáldsögu. Í gærkveldi hins vegar gat ég ekki hamið mig og grét og grét í svona 20 mín meðan ég lauk við söguna "Uppvöxtur Litla Trés" eftir Forrest Carter. Í fyrsta lagi fannst mér þetta alveg hreint yndisleg bók, þrátt fyrir sorgina og tregann sem fylltu enda hennar. Svei mér þetta hljóta að vera hormónar...

Er í dáldið strembinni viku núna, þarf að halda fyrirlestur á mánudaginn um mál sem ég þekki nánast ekki neitt. Ætla að halda hann um sama efni og lokaritgerðina mína í þessum negotiation kúrsi - um hvernig hefur gengið að uppfylla friðarsáttmálann á Norður Írlandi 1998. Mikið af efni, meira en ég kemst yfir...

Helgin var rosalega fín. Fórum til Stokkhólms á föstudaginn og beint á ráðstefnuna sem haldin var í einskonaar safnaðarheimili í Immanúelskirkju. Þetta var frekar lítill hópur fannst mér, sérstaklega fyrir þær sakir að Hans Blix var þar. Hann setti helgina (þetta var öll helgin en ég var bara á fyrsta kvöldið), og var með eindæmum gagnrýnn á Bandaríkjastjórn og hina sem gerðu innrásina í Írak. Hann var miklu gagnrýnni heldur en ég hef séð hann áður, ágætur bara kallinn. Síðan talaði einhver merkilega kona innan kjarnorku afvopnunarhreyfingarinnar, og lokst tók Felicity við. Hún var alveg frábær! Byrjaði að tala um hvernig hún hefði tekið þátt í fjöldamótmælum haldandi á skilti sem sagði "Give Blix a Chance" og hvað það væri mikill heiður að hafa hann þarna - sem það auðvitað var! Hún var fyndin en fræðandi, mjög góð ræðukona (hún er líka mikill feminismi) og hlaut mikil fagnaðarhróp er hún klykkti út með orðunum: "What we need are not weapons of mass destruction, but a mass destruction of weapons". Hún er æði :)

Ein síðbúin kveðja:

TIL HAMINGJU MEÐ AFMÆLIÐ BRÓSI! VIÐ SJÁUMST Í BARCELONA :)