Veröld Fjördísar

föstudagur, nóvember 25, 2005


TIL HAMINGJU MEÐ ÞRÍTUGSAFMÆLIÐ ÞITT, ELSKU GUÐRÚN MÍN!

Vonandi hafið þið Lárus Orri það gott og notalegt saman í dag - takk fyrir kvöldið :)

sunnudagur, nóvember 20, 2005

Lárus Orri Clausen

Litli frændi minn var skírður í gær ég hlaut hið fallega nafn, Lárus Orri.


Þar sem það eru ekki komnar inn myndir frá skírninni þá birti ég bara eina okkur frá í sl. viku, mér og "nafna mínum" .... Lárus getur ekki annað verið en bein skírskotun í Láru, millinafnið mitt! Því ekki var hann nefndur eftir fótboltakappanum sem ber sama nafn, Lárus Orri. Hann var að koma í heimsókn núna til okkar, ég ætla að fara að spjalla við hann, hann saknar mín alltaf svo mikið litli anginn :)

fimmtudagur, nóvember 17, 2005

Í gegnum mína skólagöngu hef ég ætíð verið fylgjandi "mjúkum stefnum", þið vitið, í sambandi við uppeldi, kennslu, samningaviðræður, stjórnmál og svo framvegis. Alltaf hallast að og kosið að nota umbun og refsingu, skilning, virka hlustun og leiðandi stefnur. Eitt af því sem er að gera í vinnunni núna, að vera með 12 ára strák í sérkennslu, gerir miklar kröfur til mín um að ég nái til hans og reyni að leiða hann áfram og tjónka við hann. Í dag hins vegar, missti ég alveg stjórn á mér. Ég var svo reið við hann og demdi mér yfir barnið eins og hann hefur aldrei séð áður, að ég hefði eiginlega átt að skammast mín eftir á. En hvað, drengurinn var allt annar allan daginn eftir þetta. Þetta snarvirkaði á hann. Það að ég þurfi að röfla og rífast og hækka röddina er ekki minn stíll, en á ég að halda þessu áfram fyrst þetta virkaði í dag? Þarf maður kannski bara að sýna alltaf meiri hörku til að komast áfram og vera sá sem stjórnar? Ég hreinlega veit ekki... Það eina sem ég veit er að hann á afmæli á morgun og ég er að gera fyrir hann smá afmælisgjöf - ætla að nota það til að múta honum til að vinna og hafa hægt um sig á morgun. Það á eftir að duga í svona hálftíma...

Einn átta ára gaf mér mynd í dag sem hann hafði teiknað af "Dauðavél fyrir stelpur". Í hana eru stelpur settar þar sem þær fá stærri heila, og ef þær eru ekki kramdar til dauða í vélinni, fá þær líka hærri laun á endanum þar sem "karlar fá hærri laun en konur og eru þess vegna betri". Ætli umræða um Kvennafrídaginn og launamisrétti hafi ekki alveg stimplast rétt inn hjá þessum yngstu?

fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Í morgun var enn einu sinni búið að rigna yfir hálkuna þannig að það er nánast ófært fyrir gangandi vegfarendur á göngustígum hverfisins. Sníkti þá far hjá pabba og mömmu sem skutluðu mér upp í skóla. Ég fer út úr bílnum og hitti þar tvo 8 ára vini míni sem segja við mig:

-Eru þetta pabbi og mamma þín að keyra þig í skólan?
-Já, segji ég
-Ó, ég hélt að þú værir kona! Þá ertu bara stelpa sem er keyrð í skólann!

Þeim fannst þetta alveg stórmerkilegt, að ég væri eftir allt ekki kona heldur bara stelpa! Enda er ég í mesta lagi bráðungur kvenmaður, varla neitt meira en það :)

Á öðrum nótum, ég er farin að eiga í eldheitu sambandi við "flakkarann", við erum saman nánast hvert kvöld eftir að Herdís var svo góð að setja inn á hann allskyns ólöglega hluti sem hún "rakst á" á netinu...

Þabbara að koma helgi aftur, ótrúlegt alveg hvað tíminn líður skelfilega hratt.

Dreymdi í nótt fyndinn draum um það að fréttamannaprófið og sjónvarpsfréttalesturinn sem ég fór í í síðustu viku hefði verið gabb, og í rauninni verið próf fyrir nýjan raunveruleikaþátt. Ég mætti á staðinn þar en neitaði að láta hafa mig út í eitthvað bull, fara á stefnumót á hestbaki og fleira hallærislegt sem við áttum að gera í þessum þætti. Furðulegur draumur... held ekki að RUV sé að fara að framleiða raunveruleikaþátt eins og þennan!

sunnudagur, nóvember 06, 2005

Ertu í svona þokkalega góðu skapi bara í dag? Helgin búin að vera ágæt og allt í gúddi bara? Lífið leikur bara við þér?

Þá ættir þú að tékka á þessu, á þessari síðu getur þú sett inn msn upplýsingar um þig og þá færðu að sjá hverjir hafa eytt þér út af sínum msn lista... Og dagurinn þinn gæti verið ónýtur...

:)

Svosem ekkert sem kom á óvart hjá mér, hefði alveg búist við að sjá fleiri nöfn þarna sem ég aldrei tala við. Eitt sem mér sárnaði soldið við, en vegna þess að í dag bætti mér önnur manneskja á listann sinn sem kom mér ótrúlega á óvart og gleður mig í botn, þá er mér alveg sama!!

Í fréttum er þetta helst... (ég las þetta í myndveri sjónvarpsins í morgun, ugh gekk illa, gleymdi að anda og starði í textavélina):
Leikhús - Ég er mín eigin kona, Hilmir Snær er algjör snilld
Football and Fun - Gamlar kempur með bumbur, Rex ekki að gera sig
Potturinn - gott skrapp í hálftíma með Geira, hressandi, af hverju fer maður ekki oftar í sund?
Litli frændi - sem bráðum fær nafn, við vorum memm á föstudaginn
PG - sem núna er á msn hjá mér
Jólaskraut - kommon, nóvember var rétt að hefjast!
Prjónar - tók þá heim um helgina, búin með svona tvær umferðir, samt stolt af mér!
La Liga - Athletic Bilbao náði jafntefli í dag, hlakka til að sjá hvernig gengur með nýjan þjálfarann

Vinur minn í Kanda er að fara á tónleika með My Chemical Romance, Thrice, Dilinger, Dredg, Blood Brothers, og fokkings Coheed and Cambria í vikunni. Er þetta sanngjarnt? Maður spyr sig...

(og svarið er nei by the way, þetta er EKKI sanngjarnt)

fimmtudagur, nóvember 03, 2005

Hver vissi að teiknimyndir gætu haft gott sándtrakk! Var að horfa á Jimmy Neutron með kútunum mínum í gær þegar Blitzkrieg Bop (hey ho, let´s go...) með Ramones byrjar... frábært! Svo voru líka nokkur ágæt lög, Kids in America og eitthvað - ferlega gaman :)

miðvikudagur, nóvember 02, 2005

Ég hef sagt það oft áður, það þarf ofsalega lítið til þess að gleðja mig.

Áður en ég fór í vinnuna í morgun sá ég myndband við lag sem ég elska, Bat Country með Avenge Sevenfold. Ég dillaði mér alla leið í vinnuna og var raulandi í allan dag með bros á vör, hress slagari frá strákunum. Mikið er ég nú ánægð með að eitt og eitt frábært lag rati til Íslands, það er svo mikið af rusli spilað í útvarpinu að ég er næstum búin að gefast upp á því, hvað þá að ég horfi á tónlistarmyndbönd! Þetta var bara eitthvað svo óvænt ánægja að ég varð bara glöð niður í maga - svona er maður lítil sál eitthvað þegar allt kemur til alls...

Málþing Sameinuðu þjóðanna á morgun milli 10 og 13, einhver með mér?? Ég býð í kaffi og kleinur eftirá!