Mér er illt í eyrunum og varirnar mínar eru enn hálf tilfinningalausar. Já það er ekki alltaf tekið út með sældinni að kafa á Íslandi. Kleifarvatn gekk svona ágætlega áðan, lappirnar á mér fljóta bara heldur mikið og því lenti ég í allskyns vandræðum og náði ekki að þrýstijafna eyrun, datt bara á bakið niður á botn og gat mig ekkert hreyft. Þetta svona smám saman skánar nú samt og á morgun þegar við förum aftur á ég að fá blýlóð á ökklana á mér til að reyna að koma þeim eitthvað niður. Allra erfiðast í kvöld var samt gangan úr vatninu, upp á bakkann og yfir að bílnum. Maður getur ekki hreyft sig mikið í þurrgallanum, er með níðþungan tankinn á bakinu, 10 kíló af lóðum um mittið, og þarf að príla yfir holt og hæðir og steina í þessari múnderingu. Annars var þetta bara gaman :) Vonandi enn betra á morgun þegar maður verður búinn að læra betur inn á að flotjafna gallann svo maður velti ekki bara um eða fljóti upp á yfirborðið (hvorutveggja kom fyrir mig). Svo kannski smyr maður smá vaselíni á varirnar svona til að verjast mesta kuldanum. Á morgun förum við nefnilega að gera allar æfingarnar sem voru ekkert mál í heitri sundlaug. En í kuldanum í öldugangi í þurrgallanum er þetta allt, allt annað. Þá er ekki eins gott að æfa það að klára loftið og þurfa að fá hjá hinum, eða taka af sér gleraugun á kafi, og setja þau aftur á sig og tæma af vatni, eða synda björgunarsund með manneskju... Þetta verður spennó :)