Veröld Fjördísar

miðvikudagur, maí 03, 2006

Atriði kvöldsins gerist á heimili mínu. Það er miðvikudagskvöld, og móðir mín hefur boðið 15 konum í mat og drykk heim til okkar. Konurnar eru hressar eftir leikfimina, búnar með fordrykkinn, og eru komnar í eldhúspartý. Hitti eina hressa þar, sem tilkynnti mér að hún hefði verið að vinna með móðursystir minni. Þar sem hún var líka í þessum leikfimihóp með mömmu minni og stödd heima hjá mér, hélt ég kannski að hún vissi eitthvað um mig. Við áttum stutt samtal og það var svona.

E: Svo, Hjördís, í hvaða skóla ert þú?
H: Ég er hérna upp í hverfinu bara
E: (horfir á mig spyrjandi augum)... ertu þá í.... tíunda bekk?
H: Eh nei sko... ég er að vinna þar
E: Ha? Bíddu, hvað ertu þá gömul?
H: 27 ára
E: (horfir á glasið sitt, svo mig) Ertu eitthvað að plata mig?
H: (álút) Nei.. í alvöru sko.

Eftir að hafa staðfest aldur minn við móður mína fékk hún aukin áhuga á mér og vildi endilega kynna mig fyrir syni sínum. Hann er 31, að útskrifast frá Laugarvatni. Við yrðum fullkomin saman. Henni fannst líka agalegt að ég byggi heima og vill sjá okkur flytja saman í sumar. Ég hef ekki þorað að tala við hana aftur.