Veröld Fjördísar

mánudagur, júlí 24, 2006

Síðustu daga er ég búin að:

  • Vera tvo daga heima hjá mér veik
  • Halda að ég sé búin að ná mér af lasleika
  • Komast að því að ég er bara enn drullukvefuð
  • Sjá Bóas söngvara Reykjavík! eiga Barinn og alla þá sem voru að horfa. Magnaður
  • Fara í fjölskylduútilegu með Geira og foreldrum hans
  • Sitja úti á palli á hlýrabol og lesa Rauðu seríuna
  • Skjálfa úr kulda á pallinum þrátt fyrir glampandi sól en þrjóskast við
  • Láta mömmu hans Geira bera í mig hvert glasið af fætur öðru af koníaksblöndu (fyrir hálsinn)
  • Rölta eftir sandstöndinni og hugsa um lífið og kisur
  • Fylla út fleiri blaðsíður af persónulegum upplýsingum svo ég geti fengið öryggisheimild
  • Horfa á "Velkomin til starfa" myndband sem ég hélt að hefði verið framleitt á 8. áratugnum en kom víst út 2002
  • Hlaupa í strætó fyrsta daginn í vinnunni og sitja öll sveitt og klístuð í vagninum án þess að hafa hugmynd um hvar ég ætti að fara út úr honum
  • Brosa út í annað þegar ég gekk inn í Sendiráðið í fyrsta sinn sem starfsmaður með "Baby, I´m an Anarchist" í eyrunum og glotta að því nú sé ég virkilega Spineless Liberal
  • Dæsa af ánægju þegar ég gekk um miðbæinn í embættiserindum í glaðasólskini á peysunni og brosa út í tilverunna. Ég hlakka til að halda áfram í vinnunni, finnst hún skemmtileg, áhugaverð og fjölbreytt. Þokkalega sátt bara með lífið núna!