Veröld Fjördísar

mánudagur, júlí 23, 2007

Vegna þess hve duglegur Pétur hefur verið að opna sig og játa hluti fyrir sér og öðrum, held ég að það sé kominn tími á mig. Fyrir utan það var Perlan eitthvað að klukka mig um daginn, en ég held að þessi færsla verði bara mín klukkfærsla.

Þá er komið að því - fólk, ég er nörd.

Ég veit að ég hef alltaf verið smá skrýtin, frá því að ég gekk um í Dickies buxum yfir í að setja púðursykur á skyrið mitt, en ég verð að játa að ég er nörd.

Ég spila Final Fantasy tölvuleikina. Ég les allt sem ég kemst yfir um ævintýraveröld Terry Pratchett. Ég les myndasögur og horfi á fótbolta. Ég hata að versla föt og skó, og dáist að fólki eins og Sigga pönk. Ég hlusta á gelgju ameríkurokk og unglingapönk. Mér finnst yfirleitt leiðinlegt að dansa á skemmtistöðum en get ekki beðið eftir að byrja á salsa-námskeiðinu með Pétri, sérstaklega eftir að við fórum á Ólíver í sl. viku og fengum smá forsmekk af því sem koma skal. Og nú er ég að fara til Vínarborgar í 5 daga að leika Belgíu í Öryggisráði SÞ með öðrum nördum. Hámarkinu náð?

Ég flýg út þann 4. ágúst og kem aftur heim 10 og nota sumarfríið mitt úr vinnunni í þetta. Verð í móttökum (meðal annars hjá borgarstjóra Vínar), skoða borgina, verð á fundum, skrifa "resolutions" og set mig inn í málefni sem ég þekki lítið - þau öfl sem eigast við innan Afganistan og í nágrannalöndunum, hvernig þau tengjast innbyrðis, og mögulegar lausnir um varanlegan stöðuleika í mið- og austur Asíu. Þetta geri ég með öðrum nördum sem klæða sig í jakkaföt, læra hvernig á að ávarpa aðra og leika önnur lönd. Og allt þetta bara til gamans.... Mikill undirbúningur hjá mér framundan til að standa mig vel við ræðuhöld og að gera þetta allt saman þunn miðað við þessa dagskrá :)

Jæja ég það er komin svefntími hjá mér. Og þegar ég segi svefntími þá á ég við að ég leggst upp í rúm með nýju Harry Potter bókina sem ég keypti í gær og held áfram að lesa. Við nördarnir fáum ekki mikinn svefn þessa dagana...