Veröld Fjördísar

miðvikudagur, janúar 24, 2007

Í gær þegar ég var að hlusta á X-ið var ég sönglandi með laginu Funeral með hinni ágætu hljómsveit Band of Horses, og í afkynningu tekur Frosti við að tala um að þetta lag hafi verið í spilun á X-inu í tæpt ár, en núna heyrðist honum svona frammi á gangi að það verið að eyðileggja það. Hann sagði að lagið hefði víst verið í einhverjum unglingaþætti, O.C. hélt hann, og FM hnakkarnir hefðu tekið lagið upp á sína arma og væru nú að eyðileggja það.

Og þá fór ég að hugsa. Og enn og aftur um þessa togstreitu milli hópa í samfélagi sem hlusta á mismunandi tónlist og skilgreina sig samkvæmt henni. Nú held ég að flestir viti ég er frekar víðsýn þegar kemur að tónlist, ég hlusta á rokk (allt frá emo, trúbadora, hardcore), pönk (af ýmsum toga), popp af ýmsum toga, rapp, barnatónlist, og jafnvel klassíska þegar þannig stendur á. Hins vegar finnst mér r´n´b tónlist og þessi svona "FM tónlist" alveg skelfilega leiðinleg. Hins vegar get ég ekki sagt að öll tónlist sem hljómar 95,7 sé hryllingur því þangað rata stundum fín lög, eins og áðurnefnt Funeral. Nokkur önnur lög gæti ég týnt til; Crazy með Gnarls Barkley sem er stuðlag, nokkur Fall Out Boy hafa ratað þangað og svona eitt og annað. Hins vegar, verð ég að vera sammála Frosta að um leið og lög fara í spilun á FM þá eyðileggjast þau. Af því að mér finnst ég svo þröngsýn og glötuð fyrir að hugsa þetta, reyndi ég að kryfa það hvers vegna ég hef þessa fordóma.