Veröld Fjördísar

miðvikudagur, apríl 19, 2006

Mannvonska, hugsunarleysi, eða algert skeytingaleysi um tilfinningar viðskiptavina?

Í morgun var ég fínum gír yfir skyrdrykknum mínum, þegar ég rek augun í þessa grein í Fréttablaðinu. Mér svelgdist á drykknum mínum, fékk lýsið upp í háls, og svei mér ef ég fékk ekki bara tár í augun. Hér er smá kafli úr fréttinni sem var með yfirskriftinni "Fleiri snafsategundir fyrir sælgætisgrísi", feitletrun er mín:

Nýlega kom á markaðinn ný bragðtegund af snafsinum fræga, blár Opal, með mentolbragði. Þá er einnig komin ný tegund af Tópassnafsinum sem nú er einnig fáanlegur fjólublár með kunnuglegu pipar- og lakkrísbragð. Eins og marga sælgætisgrísi rekur líklega minni til þá hurfu bláu Opaltöflurnar af markaðnum ekki alls fyrir löngu en þeir geta ekki endurnýjað kynnin við bláa Ópalinn i fljótandi formi. Nýi Opalsnafsinn á nefnilega ekkert sammerkt með gamla góða bláa Opalnum nema merkið, sem er blátt. "Liturinn er hvítskýjaður og bragðið minnir á hálsbrjóstsykur," segir Bjarni Brandsson á markaðsdeild Ölgerðarinnar.

Ég á bara ekki til orð. Hverskonar eiginlega villimennska er þetta? Halda þeir að þetta sé allt í lagi meðal almennings í landinu, almennings sem lagst hefur í hópum í blauta gröf síðan hætt var að framleiða bláan Opal? Að notfæra sér traust fólks til að pranga upp á það falskri vöru undir röngum formerkjum er óafsakanlegt í mínum bókum. Ég er vonsvikin, svekkt, og örlítið reið. Ég vona að snillingurinn sem kom með þessa hugmynd fái steinvölu í skóinn og hælsæri!!!!

*Uppfært*

sunnudagur, apríl 16, 2006


GLEÐILEGA PÁSKA KÆRU LESENDUR!

Og verði ykkur að góðu að öllum þeim páskaeggjum, páskakanínum, páskalömbum, páskaöli og páskahlaupköllum sem þið eigið eftir að láta ofan í ykkur.
Sjálf mun ég aðeins fá mér eitt lítið hænuegg (án rauðunnar) eins og Jimmy sagði mér....

ok kannski fæ ég eitt lítið súkkulaði líka, svona til að fá málshátt. Fékk reyndar eitt þannig í skólanum um daginn. Málshátturinn minn var "Barnalán er betra en fé" og þegar börnin sátu öll saman í krók spurði ég þau hvað þau héldu að málshátturinn þýddi. Einn sjö ára, mesti töffarinn, rétti upp hönd og sagði "Að það er betra að eiga börn en kindur...." Krúttubúttubörn!

(ps ég get ekki blekkt sjálfa mig lengur, ég á tvö páskaegg! Súkkulaðipáskaegg! Ætla reyndar ekki að borða þau bæði alein, svona fyllist ég góðmennsku á páskunum og deili með mér :P)

Þangað til næst, sælir!

miðvikudagur, apríl 12, 2006

Eftir síðasta kickbox tíma kom Jimmy til okkar Herdísar, og sagði við okkur að við ættum nú bara að koma í framhaldstímann á miðvikudaginn, við værum að taka framförum og svona. Við Herdís litum aumingjalegar hvorar á aðra, meðvitaðar um það að við erum langelstar í hópnum okkar en jafnfram lélegastar, með minnsta þolið og aumingjalegustu vinstri-handar högg austan Elliðaáa. Ég reyni að malda eitthvað í móinn, tauta að við höfum nú ekki einu sinni verið með í sparring (snertiboxinu) með hinum og svona... Jimmy hlustaði ekkert á það, sagði að allt sparring væri nú bara fyrir "útvalda hópinn" á föstudögum og þetta væri bara brennsla. Hann endurtók það svona tvisvar þrisvar að þetta væri aðallega bara meiri brennsla. Þangað til við náðum hintinu... Brenna meira, sparka minna. Losna við allt skvapið. Núúúú skil ég :) Þannig að á eftir ætlum við að mæta í framhaldstímann með hinum töffurunum sem eru alltaf berir að ofan og massaðir (nema stelpurnar sem eru í geggjuðu formi, geta sparkað langt fyrir ofan höfuð, og örugglega 100 kickbacks í röð) og reyna að vera okkur ekki til skammar. Annars hundskumst við bara aftur í barnahópinn, ekkert að því svosem!

Annars er ég að fara að læra að kafa - Ein.

fimmtudagur, apríl 06, 2006

Þegar maður er farinn að verða svona slappur í blogginu þá veit maður enn minna hvað maður á að skrifa. Herdís gerir oft ágæta grein fyrir því hvað við erum að bardúsa, sérstaklega ef við erum eitthvað á þvælast á tónleika eins og í kvöld. Leaves stóðu sig svona ágætlega - hljóðið á Gauknum slæmt eins og alltaf og þeir voru ekkert að trylla mig af gleði svosem... Á föstudaginn kemur spilar hins vegar bandið mitt, Jeff Who? og þá verður sko dansað :)

Á sunnudaginn var ég að fara yfir ýmislegt úr kjallaranum, reyna að grynnka á draslinu sem er það. Fann gamla skólabók úr Ritun í 4-St. Ég ætla að birta smá bút úr henni hérna...

10.12
A.T.H!
Kæra ungfrú Svanlaug!
Ég er mjög ánægð með skólann, en samt finst mér að það ættu að vera fleiri leiktæki og Maggi blaðrar allt of mikið (sérstaklega við sjálfan sig) Og mér fynst að lesturinn ætti að vera lengur.
Takk fyrir, Hjördís

(hvað var málið með mig og kunna ekki að stafsetja "finnst"? Allavega fékk ég svar á næstu síðu)

Kæra ungfrú Hjördís!
Takk fyrir orðsendinguna. Ég held að Maggi verði bráðum leiður á að tala við sjálfan sig og þá hættir hann að trufla ykkur. Það koma örugglega fleiri leiktæki á skólalóðina einhvern tíma seinna. Ég skal íhuga betur betta með lesturinn. Ritunin gengur bara vel.
Svanlaug

HAHAHA mér finnst þetta æði! Ég man svo eftir þessu með Magga.. hann var alltaf eitthvað tuðandi drengurinn, thihhihih. Þessi ritunarbók skemmti mér svo vel, ég ætla að birta hér frumsamið ljóð sem þar leynist:

Litli bíllinn
Ég sá einu sinni bíl,
hann líktist fíl
bíllinn var blár
en fíllinn grá
svo keyrði bíllinn burt

Litli bíllinn keyrði um stræti og torg
og upp í Akraborg
til að fara upp til Akranesar
að hitta Júlíus Sesar.

-----

Þessu fylgdu auðvitað myndir og alles... glæsilegt! Ó svo gaman að skoða gamlar námsbækur :)